Rósirnar heilsurækt
Hugsaðu vel um líkama og sál. Settu sjálfa þig og þína heilsu í fyrsta sæti.

18.03.2013 23:36

Að æfa skemmtilega líkamsrækt

Til þess að geta tekist á við lífið og þau hlutverk sem okkur eru falin og okkur ætluð, á sem bestan hátt, þá þurfum við að lifa heilsusamlegu lífi, sátt við okkur sjálf og aðra í kringum okkur. Líkami okkar og sál eru samtvinnuð og til að annað virki sem skyldi þarf hitt að vera í lagi. Eitt allra mesta heilsufarsvandamál vestrænna þjóða í dag er offita og streita og er vinnutengd streita eitt stærsta og mesta vandamál sem fyrirtæki glíma við.

Líkami og sál eru samtvinnuð og tengslin á milli eru ótvíræð. Hugurinn hefur áhrif á líkamann og öfugt. Líkamleg vellíðan er meiri ef hugarfarið er jákvætt. Þegar lífið einkennist af streitu og vanlíðan geta líkamleg einkenni blossað upp,  til dæmis má nefna magaverk og höfuðverk.

Til er ágætt spakmæli sem segir: „Ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag þá er ekki víst að heilsan hafi tíma fyrir þig á morgun“. Það má í raun segja að mikill sannleikur sé í þessum orðum. Það getur verið orðið of seint á morgun að ætla að sinna heilsunni. Heilsan er eitt það allra dýrmætasta sem einstaklingur á og heilsuhraustur einstaklingur er ein dýrmætasta auðlind hvers fyrirtækis.

Markmið líkamsræktar getur verið margþætt. Sumir stunda líkamsrækt til að keppa að ákveðnu marki, ætla sér að taka þátt í keppnum og æfa því stíft. Sumir stunda líkamsrækt sem lið í því að grenna sig. Sumir stunda líkamsrækt til þess að styrkja líkamann og bæta almenna líðan. Áherslurnar geta verið mismunandi og eitt markmiðið þarf ekki að útiloka annað.

Oft er líkamsrækt of mikið tengd því að komast í hörku form eða missa ákveðinn fjölda kílóa. Að sjálfsögðu er hægt að nota líkamsrækt í þessu skyni en margir gleyma aðal atriðinu með líkamsrækt sem er það að mátuleg líkamsrækt eykur bæði andlega og líkamlega líðan. Þeir sem vinna kyrrstöðuvinnu og hreyfa sig lítið eða einhæft yfir daginn, þurfa nauðsynlega að fá fjölbreytta hreyfingu einhvern tíma dagsins til þess að koma í veg fyrir fylgikvilla hreyfingarleysis eins og vöðvabólgu, stirðleika, mæði við minnstu áreynslu, stoðkerfis-, hjarta- og æðasjúkdóma, þunglyndi og svo mætti lengi telja.

Tegund hreyfingar skiptir ekki öllu máli. Aðalatriðið er að komast af stað, hafa markmiðið mátulegt og gera það sem þér finnst skemmtilegt. Lítil hreyfing er betri en engin hreyfing. Það er betra að fara út í göngutúr í 10 mínútur heldur en að sitja heima og gera ekki neitt. Það er betra að taka stigann einu sinni og sleppa lyftunni. Að standa upp frá skrifborðinu af og til og teygja sig er betra en að sitja allan daginn. Til þess að þjálfa hjarta- og æðakerfið þarf að ná púlsinum upp. Það er hægt með hvaða röskri hreyfingu sem er.

Veldu þér þá hreyfingu sem þér finnst skemmtileg og skoðaðu hvar hægt er að skjóta henni inn í daglega lífið. Hreyfingin þarf ekki alltaf að vera sú sama. Það er hægt að taka 20 mínútna gönguferð einn daginn, sund annan dag og spila badminton þann þriðja. Eða eitthvað allt annað; fara út að hjóla með börnunum einn daginn, skjótast í jóga í hádeginu nokkrum dögum síðar og ganga með saumaklúbbnum á kaffihús í lok vikunnar.

Aðalatriðið er að setja hreyfinguna inn sem jafn sjálfsagðan hluta af daglega lífinu eins og að bursta tennurnar. Ekki fara af stað með látum og ætla sér allt of mikið. Settu þér raunhæf markmið og auktu lífsgæði þín með mátulegri hreyfingu.

Gerðu hreyfinguna að skemmtilegum punkti í lífi hvers dags. Lausnin er oftar en ekki nær okkur en við höldum. Stattu upp og berðu þig eftir lausninni. Það getur enginn gert það fyrir þig. Þú ein berð ábyrgð á þér sjálfri og þinni líðan.

Með kærleikskveðju,

 

 

Flettingar í dag: 1606
Gestir í dag: 104
Flettingar í gær: 266
Gestir í gær: 82
Samtals flettingar: 133866
Samtals gestir: 27699
Tölur uppfærðar: 19.6.2024 17:48:06